Við hugsum bæði í orðum og myndum. Okkur er áskapað að hugsa í myndum, en lærum síðar að hugsa með orðum.
Í skólanum lærum við að lesa, við lærum að tengja saman hljóð og tákn.
Kennsla og nám í skólum byggir síðan mest á hugsun með orðum, hljóðum og táknum, við hlustum á talað mál og lesum ritað mál.
Hugsar þú í myndum?
Þá getur lestur vafist fyrir þér vegna þess að þér nægir ekki hljóðmynd orða og útlitsmynd til þess að skilja og læra, - þú þarft að ná þriðju myndinni, merkingarmyndinni. Það er auðvelt að sjá fyrir sér merkingarmynd orða eins og hús eða bíll, en hvað með myndlaus
orð eins og afar eða næstum!
Þeir, sem hugsa í myndum, lenda oft í basli í skóla. Þeir eiga erfitt með tákn og tölur, að taka eftir því sem kennarinn segir eða að vera stilltir.
Er þá gjarnan talað um lesblindu, reikniblindu, athyglisbrest eða ofvirkni.
Orsaka sértækra námsörðugleika er gjarnan að leita í þrívíðri myndhugsun og þar af leiðandi skynvillu.
Þegar við mætum einhverju óþekktu eða óvæntu verðum við ráðþrota og ringluð. Til þess að leysa málið grípum við til skynvillu, - byggjum lausnina fremur á eldri (hugar) myndum en því sem við blasir.
Hugsanir okkar og lausnir eru því ekki í fullu samræmi við fyrirliggjandi staðreyndir.
Þetta á því betur við sem myndræn hugsun okkar er frjórri.
Úrbætur felast í því að stilla saman ytri og innri skynjun, þannig að lausn fyrirliggjandi vandamáls byggi á óbrenglaðri skynjun ytri veruleika með stuðningi eldri mynda.